Hvað er heildræn einkaþjálfun?
Kjarni heildrænnar nálgunar felst í því að við erum líkami, hugur og sál og þessir þættir verða ekki aðskildir. Grunnur heildrænnar einkaþjálfunnar felst í því að samtvinna styrktarþjálfun í tækjasal og þolþjálfun við jógaiðkun og flæðisöndun í þeim tilgangi að ná fram hámarksárangri, fullri orku og vellíðan. 

Hug- og heilsurækt
Öll erum við ólík og búum að ólíkri reynslu sem mótar okkur í tímans rás. Reynslan mótar ekki aðeins sjálfsmynd okkar heldur hefur hún einnig áhrif á líkamsástand og líkamsburð okkar – hvernig okkur líður í eigin skinni, hvernig við nærumst og hvernig við hugsum um okkur.

Langvarandi verkir, vöðvaspenna og viðnám í ákveðnum svæðum líkamans tengjast þannig gjarnan fyrri lífsreynslu, áföllum, streitu og tilfinningum.

Aldrei of seint að byrja
Við höfum tilhneigingu til að nota lokaða og stífa líkamsstöðu til að verja okkur tilfinningalega. Með tímanum veldur þetta því að vöðvarnir styttast, líkamstaðan aflagast, jafnvægispunktur líkamans skekkist, öndun grynnist og ef til vill fara
verkjavandamál að gera vart við sig.

Þessu ferli er hægt að snúa við. Það er aldrei of seint. Hámarks orka, vellíðan, andlegt og líkamlegt heilbrigði, agi, ástundun og andleg vakning. Það er áfangastaðurinn.